Samþykktir samtakanna

Samþykktir byggingarsamvinnufélagsins Samtaka aldraðra bsvf.

1. kafli

Almenn ákvæði

1. gr.

Heiti félags, heimili og varnarþing

Félagið heitir Byggingarsamvinnufélagið Samtök aldraðra. Heimili félagsins og varnarþing er í Síðumúla 29, 108 Reykjavík.

2. gr.

Tilgangur félags

Tilgangur félagsins er:

a. Að reisa með sem hagkvæmustum kjörum íbúðir eða íbúðarhús fyrir félagsmenn sína til eigin afnota, ásamt öðrum byggingum sem teljast vera í eðlilegum tengslum við íbúðarhúsnæðið.

b. Að eiga aðild að fyrirtækjum með takmarkaðri ábyrgð, s. s.

samvinnusamböndum samkvæmt lögum um samvinnufélög og hlutafélögum, enda starfi hlutaðeigandi fyrirtæki á sviði byggingariðnaðar eða að öðrum verkefnum sem mikilvæg verða að teljast fyrir byggingarsamvinnufélagið. c. Að útvega lán til byggingarframkvæmda sem félagið annast.

d. Að vinna að öðrum velferðarmálum aldraðra.

3. gr.

Félagssvæði

Félagssvæði félagsins nær yfir Reykjavík og nágrenni.

4. gr.

Félagsaðild

Félagsmenn geta orðið einstaklingar sem eru fjárráða, hafa náð 50 ára aldri og eiga lögheimili á félagssvæðinu. Þeir félagsmenn sem hafa náð 60 ára aldri geta fengið úthlutað nýrri íbúð eða keypt eldri íbúð sem reist er á vegum félagsins. Stjórn félagsins skal halda skrá yfir nöfn allra félagsmanna.

Við innngöngu í félagið skal hver félagsmaður undirrita yfirlýsingu þess efnis að hann skuldbindi sig til að vera félagsmaður á meðan hann er eigandi að íbúð á vegum félagsins og hlíta samþykktum þess eins og þær eru á hverjum tíma.

Ekki er heimilað að börn eða barnabörn séu skráð með lögheimili í íbúðum fyrir aldraða nema með samþykki Samtakanna.

5. gr.

Fjáröflun

Félagið skal afla fjár með eftirfarandi hætti:

a.Með árgjaldi, sem hverjum félagsmanni ber að greiða, og ákveðið skal á aðalfundi félagsins ár hvert.

b.Með gjaldi sem nemur 1% af byggingarkostnaði hverrar íbúðar sem félagið lætur reisa og byggjandi greiðir.

c.Með gjaldi sem nemur allt að 1% af endursöluverði íbúða og kaupandi greiðir.d. Með lántökum.

e. Með frjálsum framlögum hvers félagsmanns eða annarra.

6. gr.

Rekstrarsjóður

Tekjur samkvæmt a. lið 5. gr. renna í rekstrarsjóð. Rekstrarkostnaður félagsins greiðist úr rekstrarsjóði.

Kostnaður við að reisa nýjar byggingar, þ. m. t. kostnaður af auknum rekstri meðan á undirbúningi byggingarframkvæmda stendur, gerð byggingarsamnings, gerð verksamnings við verktaka og hönnuði, þátttaka í byggingarfundum og annað eftirlit með byggingarframkvæmdunum sjálfum og uppgjöri þeirra, telst ekki rekstrarkostnaður í skilningi 1. mgr.

7. gr.

Varasjóður

Tekjur samkvæmt b. og c. liðum 5. gr. renna í varasjóð félagsins. Tekjur samkvæmt e. lið sömu greinar renna einnig í varasjóð nema annað sé tekið fram af þeim sem innir framlag eða gjöf af hendi til félagsins. Varasjóð skal ávaxta á sem hagstæðastan hátt hjá banka eða sparisjóði sem hefur leyfi Fjármálaeftirlitsins til starfsemi sinnar.

Tap, sem verða kann á rekstri félagsins, greiðist úr varasjóði.

II. kafli

Byggingarframkvæmdir

8.gr.

Áætlanagerð og röðun í byggingarflokka

Stjórn félagsins skal láta gera ítarlega áætlun um byggingarframkvæmdir ásamt greinargerð um öflun nauðsynlegs fjármagns til framkvæmdanna áður en hafist er handa um þær. Áætlunin ásamt greinargerð skal kynnt á félagsfundi.

Þegar stjórn félagsins undirbýr nýjan byggingarflokk skal hún auglýsa með áberandi hætti á vef félagsins og/eða í fréttabréfi þess eftir umsóknum meðal félagsmanna um íbúðir í hlutaðeigandi byggingu. Skal félagsmönnum gefinn a. m. k. þriggja vikna frestur frá birtingu auglýsingar til að skila umsóknum til stjórnar. Stjórnin skal raða félagsmönnum í byggingarflokka eftir umsóknum og skulu þeir hafa forgangsrétt að íbúðum sem lengst hafa verið í félaginu og sent inn umsókn á auglýstum umsóknarfresti. Úthlutun íbúðar er enn fremur háð því að félagsmaður uppfylli skilyrði fjármögnunaraðila.

9.gr.

Umsjón með byggingarframkvæmdum

Félagið annast byggingarframkvæmdir í umboði félagsmanna við hvern byggingarflokk, þ. m. t. samningagerð við verktaka og aðra í sambandi við framkvæmdir. Félagið skal að jafnaði skila íbúðum fullgerðum til eigenda, en þó má stjórn þess veita undanþágu frá þessu skilyrði ef eigandi tryggir fullnaðarfrágang íbúðar innan hæfilegs tiltekins tíma.

Félagsstjórn úrskurðar um skiptingu byggingarkostnaðar milli einstakra íbúðareigenda í samræmi við ákvæði byggingarsamnings og almennar reglur, ef til eru.

10. gr.

Byggingarsamningur

Félagið skal gera byggingarsamning við félagsmenn. Í samningnum skal m.a. kveðið á um greiðslutilhögun, afhendingartíma og viðurlög við vanefndum.

Í byggingarsamningi skal kveðið á um rétt félagsmanna, sem eiga aðild að viðkomandi byggingarflokki, til að fylgjast með framkvæmdum á byggingarstigi og vera með í ráðum. Í þessu skyni skulu þeir við stofnun byggingarflokksins kjósa þrjá menn úr sínum hópi til þess að fylgjast með framkvæmdum og fjárreiðum flokksins. Þessir menn skulu hafa aðgang að öllum gögnum félagsins varðandi byggingarflokkinn. Enn fremur skulu þeir ásamt löggiltum endurskoðanda yfirfara öll fylgiskjöl og árita reikninga byggingarflokksins. Þannig frágengnir skulu reikningarnir lagðir fyrir fund byggingarflokksins til staðfestingar.

11 . gr.

Ágreiningsmál o. fl.

Stjórn félagsins kemur fram fyrir hönd íbúðareiganda í málum sem rísa kunna í sambandi við framkvæmdir uns íbúðirnar hafa verið afhentar og heimilt er henni að taka að sér slíkan málarekstur á síðara stigi ef íbúðareigendur bera fram skriflega beiðni þess efnis. Kostnaður við slík málaferli og úrbætur telst til sameiginlegs kostnaðar félagsmanna í hlutaðeigandi byggingarflokki og skal jafnað niður á íbúðirnar eftir eignarhlutföllum.

Félagið verður ekki krafið skaðabóta af einstökum félagsmönnum eða byggingarflokkum nema tjón verði rakið til mistaka eða vanrækslu stjórnar eða framkvæmdastjóra félagsins. Um bótarétt að öðru leyti gilda almennar reglur skaðabótaréttar.

III. kafli

Réttindi og skyldur félagsmanna

12. gr.

Endursala íbúða

Sá, sem fengið hefur íbúð að tilhlutan félagsins, má ekki selja íbúðina nema stjórnin hafi áður hafnað forkaupsrétti af hálfu félagsins. Áform um sölu á íbúð skal tilkynna skriflega og sannanlega til félagsins. Söluferli innan félagsins hefst með auglýsingu á vef eða í fréttabréfi. Íbúð skal auglýst með áberandi hætti og tilboðsfresti í 14 daga þ.e. frá þeim tíma er eigandi tilkynnti sannanlega til félagsins um áformaða sölu hennar. Eigandi sem fengið hefur íbúð að tilhlutan félagsins má ekki setja hana í almenna sölu fyrr en að enduðu söluferli innan félagsins. Söluverð íbúðar má aldrei vera hærra en upphaflegt kostnaðarverð hennar, að teknu tilliti til vísitölu byggingarkostnaðar og með hliðsjón af viðskeytingu, lagfæringu og ástands hennar samkvæmt mati matsmanns félagsins eða dómkvadds matsmanns/matsmanna, hversu oft sem eigendaskipti verða. Stjórn félagsins setur nánari reglur um útreikning kostnaðarverðs íbúðar. Eigandi eignar greiði matsmanni félagsins matsþóknun, sem er ákveðin af stjórn.

Enginn getur eignast íbúð í húsum félagsins nema vera félagsmaður, greiða árgjöld til félagsins og fullnægja að öðru leyti þeim skilyrðum sem sett eru í samþykktum þessum. Sala er háð samþykki stjórnar og skal bindandi kauptilboðum raðað í samræmi við lengd félagsaðildar tilboðsgjafa og tilboðsfjárhæð þannig að sá sem lengst hefur verið í félaginu og á hagstæðasta tilboð, sbr. 1. mgr., eigi fyrsta kauprétt og þannig koll af kolli.

Enginn félagsmaður getur átt fleiri íbúðir en eina sem byggðar eru af Samtökum aldraðra bsvf. Heimilt er félagsmanni sem á íbúð sem byggð hefur verið af

Samtökum aldraðra að skrá sig fyrir kaupum á nýrri íbúð sem byggð er af Samtökunum eða gera tilboð í íbúð sem er í endursölu og fer þá um rétt hans á sama hátt og um aðra félagsmenn. Ef hann hlýtur og nýtir forkaupsrétt að íbúð ber honum að selja fyrri eign sína.

Hafi félagsmaður og eigandi íbúðar andast hefur eftirlifandi maki, þ. m. t. samvistarmaki, ætíð forkaupsrétt að íbúð eða þeim eignarhluta sem ekki er í hans eigu eða telst arfshluti hans. Að honum frágengnum eiga börn og tengdabörn látins félagsmanns sams konar forkaupsrétt að íbúð. Sá þessara aðila sem nýtir forkaupsrétt skal vera félagsmaður og gengur forkaupsréttur hans framar rétti félagsins samkvæmt 1. mgr. Stjórn félagsins er þó heimilt í undantekningartilvikum að víkja frá skilyrðum þessarar málsgreinar.

13. gr.

Leiga íbúða og tryggingar

Íbúðir reistar á vegum félagsins eru ætlaðar til eigin afnota félagsmanna.

Útleiga þeirra er því óheimil nema að fengu skriflegu leyfi stjórnar félagsins.

Slíkt leyfi skal aðeins veitt um stundarsakir og aldrei til lengri tíma en 6 mánaða. Húsvarðaríbúð má þó leigja til lengri tíma.

Íbúðareiganda er skylt að hafa gilda húseigendatryggingu eða fasteignatryggingu á íbúð sinni, sem bæti allt tjón, sem gæti stafað frá íbúð hans, þ. á m. vatnstjón. Hvert húsfélag sér um að taka slíka tryggingu, en kjósi íbúðareigandi sjálfur að taka húseigendatryggingu, er honum skylt innan tveggja vikna að leggja fram staðfestingu þess efnis til hússtjórnar, komi fram krafa um það. Ella er húsfélagi heimilt að kaupa húseigendatryggingu eða sambærilega tryggingu og endurkrefja íbúðareiganda um andvirði hennar þegar í stað.

14. gr.

Úrsögn úr félaginu o. fl.

Íbúðareigendum, sem keypt hafa íbúðir á vegum félagsins, er skylt að greiða félagsgjöld til félagsins. Úrsögn úr félaginu getur átt sér stað þegar félagsmaður selur íbúð sína. Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og send stjórn með sannanlegum hætti. Við úrsögn úr félaginu getur félagsmaður ekki gert neitt tilkall til sjóða félagsins. Félagsmaður, sem hefur sagt sig úr félaginu, tapar áunnum réttindum vegna falboðinna íbúða á vegum félagsins. Verði félagsmaður ber að því að því að spilla áliti félagsins eða vekja tortryggni hjá félagsmönnum er stjórninni heimilt að víkja honum úr félaginu. Taki stjórnin slíka ákvörðun skal hún tilkynna það félagsmanni skriflega þegar í stað. Sætti hlutaðeigandi sig ekki við ákvörðun stjórnarinnnar getur hann skotið máli sínu til næsta félagsfundar.

IV. kafli

Félagsfundir

15. gr

Æðsta vald í málefnum félags

Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins með þeim hætti sem lög og félagssamþykktir ákveða. Aðalfundur skal haldinn fyrir lok aprílmánaðar ár hvert. Auk þess getur félagsstjórn boðað til aukafundar þegar henni þykir þess þörf. Enn fremur er stjórninni skylt að boða til aukafundar ef fjórðungur félagsmanna óskar þess skriflega og greinir fundarefni. Hafi stjórn ekki boðað til fundar innan 14 daga eftir að henni barst krafan geta hlutaðeigandi félagsmenn sjálfir boðað til fundar. Skal slík fundarboðun vera í samræmi við lög og félagssamþykktir. Fundir eru lögmætir ef löglega er til þeirra boðað.

16. gr.

Boðun aðalfundar og félagsfunda

Til aðalfundar og félagsfunda skal boða með minnst 7 daga fyrirvara.

Fundarboðun skal eiga sér stað með almennri auglýsingu í dagblöðum og á

vef samtakanna eða í fréttabréfi félagsins. Í fundarboði skal greina málefni sem taka á fyrir á fundi. Ef taka á til meðferðar á fundi breytingar á samþykktum skulu breytingartillögur liggja frammi á skrifstofu félagsins minnst 7 dögum fyrir fund og afhentar hverjum félagsmanni sem þess óskar.

17. gr.

Dagskrá aðalfundar

Á aðalfundi skal leggja fram ársreikning og skýrslu skoðunarmanns/manna ásamt skýrslu stjórnar um hag félagsins:

Á fundinum skal taka ákvörðun um: a. Staðfestingu ársreiknings

b. Kjör stjórnar og skoðunarmanna

c.Þóknun stjórnarmanna og skoðunarmanna fyrir næsta ár

d. Önnur þau mál sem heyra undir aðalfund samkvæmt lögum og félagssamþykktum.

Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála á félagsfundum nema félagssamþykktir eða lög kveði á um annað. Tillaga um breytingu á félagssamþykktum telst því aðeins samþykkt að 2/3 hlutar fundarmanna á aðalfundi greiði henni atkvæði sitt.

18. gr.

Fundargerð

Fundargerðir skulu ritaðar í fundargerðabók, sem lesin sé upp og borin undir atkvæði í fundarlok, eða í byrjun næsta fundar. Fundargerð skal staðfest með undirskrift fundarstjóra og ritara.

IV. kafli

Félagsstjórn og endurskoðun

19. gr.

Skipan stjórnar

Stjórn félagsins skal skipuð 5 mönnum og öðrum 3 til vara. Stjórnin skal kjörin á aðalfundi. Á fundum félagsins og aðalfundi fylgir eitt atkvæði hverju greiddu félagsgjaldi. Heimilt er félagsaðila að láta umboðsmann sækja félagsfundi fyrir sína hönd, en umboðsmaður getur þó ekki farið með nema atkvæði eins félaga auk atkvæðis er hann hefur sjálfur. Umboð til fundarsóknar skal vera skriflegt og vottfest og ekki eldra en þriggja mánaða.

Stjórnarmenn skulu kjörnir skriflega ef fleiri eru í kjöri, samkvæmt tilnefningu. Formaður skal kosinn sérstaklega til þriggja ára í senn. Kjörtímabil annarra stjórnarmanna er 3 ár. Framboð til setu í stjórn skulu tilkynnt til stjórnar eða skrifstofu félagsins með minnst 14 daga fyrirvara. Engan má kjósa í stjórn nema hann sé félagsmaður. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum á fyrsta fundi eftir aðalfund.

20. gr.

Stjórnarfundir

Formaður boðar til stjórnarfunda. Stjórnarfundur er lögmætur ef minnst 3 stjórnarmenn eða varamenn þeirra eru á fundi. Afl atkvæða ræður úrslitum en séu þau jöfn ræður atkvæði formanns. Allar ákvarðanir stjórnarinnar skulu færðar í gerðabók stjórnar og rita viðstaddir stjórnarmenn undir ákvarðanir í lok fundar. Félagsstjórn fer með málefni félagsins í samræmi við lög og félagssamþykktir og gætir hagsmuna þess í hvívetna. Stjórnin gætir þess að skipulag félags og starfsemi sé jafnan í góðu og réttu horfi. Stjórnin hefur eftirlit með öllum framkvæmdum félagsins, innheimtir félagsgjöld og sér um eftirlit á húsum þeim sem félagið hefur byggt eða selt félagsmönnum að svo miklu leyti sem slíkt eftirlit er ekki í höndum húsfélags viðkomandi húss. Stjórninni er heimilt að ráða félaginu launaðan starfsmann/menn.

21. gr.

Ritun firma og prókúrumboð

Samningar þeir sem stjórnin gerir fyrir hönd félagsins, samkvæmt samþykktum þess, eða fundarályktunum í félaginu, eru bindandi fyrir félagið. Stjórnarmenn, 3 saman, skuldbinda félagið. Stjórnin veitir stjórnarmanni eða starfsmanni prókúruumboð.

22. gr.

Endurskoðun

Aðalfundur kýs skoðunarmann og annan til vara. Skulu þeir vera félagsmenn. Kjörtímabil þeirra er tvö ár. Félagsstjórn skal fela löggiltum endurskoðanda ásamt skoðunarmönnum félagsins uppgjör þess. Skoðunarmenn skulu sannprófa að reikningnum félagsins beri saman við bækur þess, enda eigi þeir hvenær sem er aðgang að öllum bókum þess og skjölum og er stjórninni skylt að veita þeim þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd starfans. Enn fremur er það skylda skoðunarmanna að hafa eftirlit með starfrækslu félagsins yfirleitt. Verði þeir varir við misfellur sem þeir álíta að félaginu geti stafað hætta af, skulu þeir hlutast til um að úrbætur séu gerðar svo fljótt sem þörf krefur. Takist það eigi, skulu þeir boða til fundar í félaginu og bera málið þar upp til úrlausnar. Skoðunarmenn bera ábyrgð gagnvart aðalfundi. Reikningsskilum skal lokið svo tímanlega að skoðun skoðunarmanna og löggilts endurskoðanda geti farið fram áður en aðalfundur er haldinn og skulu reikningarnir lagðir þar fram til staðfestingar.

V. kafli

Önnur atriði

23. gr.

Lagatilvísanir

Um skrásetningu félagsins og félagsslit fer eftir lögum um samvinnufélög.

Sama er um öll önnur atriði, sem ekki eru tekin fram í samþykktum þessum en fjallað er um í þeim lögum, lögum um byggingarsamvinnufélög og lögum um fjöleignarhús eftir því sem við á.

24. gr.

Gildistaka

Samþykktir þessar voru samþykktar á aukaaðalfundi

Byggingarsamvinnufélagsins hinn 7. desember 2021 og öðlast gildi þegar þær hafa hlotið staðfestingu Innviðaráðuneytisins.

Samþykktir þessar voru staðfestar af Innviðaráðuneytinu hinn 20. apríl 2022.