Sögukynning

Byggingarsamvinnufélagið Samtök aldraðra bsvf


Stofnfundur að Samtökum aldraðra var haldinn 29. mars 1973. Félagar gátu orðið einstaklingar, félög og stofnanir í Reykjavík og nágrenni.

Tilgangur félagsins var:

  • Að vinna að velferðarmálum aldraðs fólks á félagssvæðinu.
  • Stuðla að byggingu hentugra íbúða fyrir aldraða.
  • Vinna að aukningu á sjúkrarými fyrir aldraða, er þurfa hjúkrunar við.
  • Stuðla að bættri félagslegri þjónustu hins opinbera við aldraða í heimahúsum.
  • Stuðla að samvinnu við hliðstæð félög, innlend og erlend.
  • Vinna gegn því, að öldruðum sé íþyngt með óeðlilegum skattaálögum.

Aðalhvatamaður að stofnun félagsins var Auðunn Hermannsson sem kom einnig að stofnun DAS. Allt fram til ársins 1981 unnu Samtökin fyrst og fremst að almennum velferðamálum aldraðram.a. að stofnun Múlabæjar, dagvistar fyrir aldraða, 1983 og Hlíðabæjar, sérhæfðrar dagþjálfunar fyrir fólk sem greinst hefur með heilabilunarsjúkdóm, 1986. Efnt var m.a. til happdrættis til styrktar þessum heimilum. Árið 1976 var stofnuð sérstök nefnd á vegum Reykjavíkurborgar til að standa fyrir auknum byggingarframkvæmdum á vegum borgarinnar í þágu aldraðra. Snemma þótti samt ljóst að framkvæmdir borgarinnar mundu lítt duga og til þyrfti að koma samvinna við fleiri aðila. Nefndin auglýsti því árið 1982 eftir samstarfsaðilum um frekari framkvæmdir og það leiddi til samstarfs hennar við Samtök aldraðra. Fyrstu hús byggð á þeirra vegum voru að Akralandi 1 og 3, samtals 14 íbúðir sem afhentar voru 1984. Þetta var á tímum óðaverbólgu og hárra vaxta. Alls staðar var komið að lokuðum dyrum í fjáröflun til byggingaframkvæmda.

Á þessum árum leituðu forsvarsmenn lífeyrissjóða og verkalýðsfélaga fyrirmynda á Norðurlöndum um fjölþætt félagsstarf í þágu aldraðra. Meðal þeirra má nefna Hrafn Magnússon, Benedikt Davíðsson og Snorra Jónsson. Sá áhugi leiddi til þess að í mars 1986 var stofnað Félag eldri borgara í Reykjavík. Markmið félaganna eru náskyld og samstarf þeirra hefur verið með ágætum. Bæði félögin vinna að byggingu íbúða fyrir aldraða en Félag eldri borgara hefur breiðara starfssvið sem hlúir að hvers konar áhugamálum eldra fólks. Samtök aldraðra nutu lengi mikilsverðs stuðnings hjá kjörnum fulltrúum Reykjavíkurborgar. Meðal þeirra má nefna Pál Gíslason, lækni og skátahöfðingja, Alfreð Þorsteinsson og Vilhjálm Vilhjálmsson.

Upp úr samstarfi Samtakanna við nefnd Reykjavíkurborgar um byggingar fyrir aldraða hófst mjög árangursríkt samstarf þeirra og verktakafyrirtækisins Ármannsfells með þeim árangri að reist voru á árunum 1986-1992 fjögur hús með sérstökum íbúðum fyrir aldraða í Bólstaðahlíð 41 og 45, við Dalbraut 18-20, Aflagranda 40 og Sléttuveg 11-13, þar sem borgin lagði til þjónustuaðstöðu, en Samtökin sáu um alla framkvæmd að öðru leyti. Þjónustuaðstaðan veitti tækifæri reksturs mötuneyta og margvíslegrar félagsstarfsemi. Fyrsta lóð sem Samtök aldraðra fengu í sjálfstæðri úthlutun, þ.e. án þess að verktaki fylgdi með, var undir húsið Dalbraut 16 árið 1997. Síðan voru byggðar samstæður að Dalbraut 14-16, Sléttuvegi 19-21-23 og Sléttuvegi 29-31. Samtökin hafa lengi barist fyrir byggingu hjúkrunarheimilis og þjónustmiðstöðvar við Sléttuveg 25-27 og þær byggingar eru nú loks að rísa í samvinnu DAS, Reykjavíkurborgar og ríkisins. Þrátt fyrir brýna þörf hafa Samtökin ekki fengið nýja lóð hjá Reykjavíkurborg síðan 2009, fyrr en nú að Austurhlíð 10 við hlið fyrri húsa Samtakanna að Bólstaðarhlíð 41 og 45 og þjónustumiðstöðvar Borgarinnar að Bólstaðarhlíð 43. Hins vegar byggðu Samtökin hús að Kópavogstúni 2-4 og Kópavogsgerði 5-7 í samstarfi við verktakafyrirtækið Dverghamra. Þar var fyrirhugað að íbúar ættu aðgang að þjónustumiðstöð í Sunnuhlíð en af því hefur enn ekki orðið eftir að ríkið tók rekstur hennar yfir. Með húsunum við Austurhlíð 10, sem afhenda á í apríl 2021, verða íbúðir fyrir aldraða sem Samtökin hafa byggt orðnar 512. Í þeim búa um 700 – 800 manns við meðalaldur um 84 ár.

Hús byggð á vegum Samtaka aldraðra

Staður

Fjöldi íbúða

Afhent

Þjónusta

(Akraland 1-3)

14

1984


Bólstaðarhlíð 41 og 45

66

1986 og 1987

Húsvörður í fullu starfi. Þjónustusel byggt og rekið af Reykjavíkurborg er milli húsanna í nr. 43

Dalbraut 18-20

47

1987

Húsvörður í fullu starfi. Þjónustusel byggt og rekið af Reykjavíkurborg er milli húsanna.

Aflagrandi 40

61

1989

Þjónustusel byggt og rekið af Reykjavíkurborg er í húsinu.

Sléttuvegur 11-13

51

1992

Húsvörður í fullu starfi.Þjónustusel byggt og rekið af Reykjavíkurborg er í húsinu.

Dalbraut 16

22

1999


Dalbraut 14

27

2003

Húsvörður í hálfu starfi.

Sléttuvegur 19-21-23

70

2007

Húsvörður í fullu starfi.

Sléttuvegur 29-31

58

2011

Húsvörður í fullu starfi.

Kópavogstún 2-4

28

2013

Kópavogi. Tengsl við þjónustumiðstöðina Sunnuhlíð gengu ekki eftir.

Kópavogsgerði 5-7

22

2016

Kópavogi. Tengsl við þjónustumiðstöðina Sunnuhlíð gengu ekki eftir.

Austurhlíð 10

60

2021

Tengt við Þjónustusel Reykjavíkurborgar að Bólstaðarhlíð 43.

Samtals 512 íbúðir. fjöldi íbúa er á bilinu 7-800. Meðalaldur íbúa er um 84 ár.

Þjónustumiðstöðvar sem fyrirhuguð er við Sléttuveg 25-27 er beðið með óþreyju. Áform um byggingu hennar eru allt frá 2003.

Í fyrstu fundargerðum Samtaka aldraðra kemur fram að þau hafi verið stofnuð sem byggingar-samvinnufélag og einbeiti sér að því mikilvæga verkefni að búa öldruðum gott ævikvöld í íbúðum sem henta þeim sérstaklega. Áhersla hefur verið lögð á að fá borgaryfirvöld til að úthluta lóðum undir íbúðir fyrir eldri borgara sem jafnframt hefðu tengingu við þjónustusel. Samtökin viljabyggja vandaðar íbúðir með rúmgóðum bað- og svefnherbergum, lyftu, sameiginlegu rými fyrir félagsstarf og ýmsa þjónustu, og tryggja að fólk í hjólastólum geti ferðast um allt húsið,. Göngustígar eru upphitaðir. Rúmgóð stæði í upphitaðri bílgeymslu fylgja öllum íbúðum sem byggðar eru í dag.

Félagsmenn í Samtökum aldraðra eru nú um 3000. Margir þeirra munu einnig vera í Félagi eldri borgara. Félagsmenn geta orðið allir sem eru 50 ára og eldri og eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Hjón greiða eitt árgjald. Þeir sem hafa náð 60 ára aldri geta fengið úthlutað nýrri íbúð eða keypt eldri íbúð sem reist er á vegum félagsins. Nýjar íbúðir eru seldar á kostnaðarverði auk 1% gjalds sem rennur varasjóð félagsins. Söluverð íbúðar í endursölu má aldrei vera hærra en upphaflegt kostnaðarverð eignar (stofnkostnaður) að viðbættri verðhækkun/lækkun samkvæmt vísitölu byggingarkostnaðar, með hliðsjón af viðskeytingu, lagfæringu og ástandi hennar samkvæmt mati matsmanns félagsins eða dómkvadds matsmanns/matsmanna. Sá sem lengst hefur verið í félaginu og á hæsta tilboð (þó eigi hærra en framreiknað verð) á fyrsta kauprétt og þannig koll af kolli. Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel fyrir félagið og félagsmenn sbr. síðustu úthlutun íbúða í Austurhlíð 10 til félagsmanna nú í janúar s.l. Á valfundi með um 300 félögum sem haldinn var 30. janúar völdu 54 félagar sér íbúð, skrifuðu undir byggingarsamning stuttu seinna og greiddu staðfestingargjald 10% af áætluðum byggingarkostnaði.

Samtök aldraðra bsvf voru stofnuð til að mæta skefjalausri „græðgis­væðingu“ íbúðamarkaðarins gagnvart öldruðum. Byggingameistarar nýttu sér þetta markaðsástand. Aldraðir, sem höfðu safnað saman alla ævi til efri áranna, þurftu að sæta því að setja sína síðustu krónu í byggingarfyrirtæki, sem seldi íbúðir yfirleitt á almennu markaðsverði en ekki kostnaðarverði. Það hefur ætíð þótt góður biti og talið öruggt að byggja fyrir aldraða. Samtök aldraðra hafa það hins vegar að markmiði að byggja góðar og vandaðar fasteignir á kostnaðarverði eins og áður segir og tryggja að þær haldist á kostnaðarverði við endursölu, til hagsbóta fyrir aldraða sem þurfa að kaupa íbúðir. Það hefur aldrei verið markmið félagsins að eyða of miklum fjármunum í steinsteypu. Aldraðir þurfa jú að lifa og njóta efri áranna og það verður ekki gert nema þeir búi við fjárhagslegt öryggi og geti leyft sér eitthvað annað en að fjárfesta í steinsteypu. Félagsmenn Samtakanna eru að fá fasteignir á mun betri kjörum en almennt gengur og gerist. Það getur munað verulegum fjárhæðum, s.s. 5 – 8 milljónum á hverja íbúð. Það er ekki svo lítil kjarabót, sem kemur yfirleitt á einu bretti í hendur félagsmanns Samtakanna.

Reykjavíkurborg á miklar þakkir skildar fyrir sitt framlag hingað til. En það má gera betur ef duga skal. Nú eru væntanlegir á húsnæðismarkaðinn stórir árgangar af öldruðum á næstu árum og þá þarf Reykjavíkurborg að gefa þjónustunni við aldraða meiri gaum. Það er þjóðhagslega hagkvæmt að gera öldruðum kleift að búa sem lengst í eigin íbúð. Það verður hins vegar ekki gert nema með lágmarksþjónustu frá borginni líkt og í þjónustumiðstöðvunum á Aflagranda 40, Bólstaðahlíð 41-45 og þeirri sem nú er í byggingu á Sléttuveginum.