18.01.2016 | Fréttir

Framleiðslueldhús

Framleiðslueldhús Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar við Lindargötu.Matur er stór hluti af lífi fólks. Skoðanir, væntingar og þarfir fólks varðandi mat eru mismunandi og þess vegna er nauðsynlegt að máltíðir sem í boði eru séu fjölbreyttar,ferskar og henti eins fjölbreyttum notendahóp og við verður komið. Það er einnig mikilvægt að þeir sem þjónustunnar njóta geti treyst því að þeir fái mat sem er öruggur, næringarríkur og innihaldi þá orku sem hæfileg er og í samræmi við ráðleggingar þar að lútandi.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar rekur framleiðslueldhús á Lindargötu sem framleiðir mat sem sendur er til fólks í heimahúsum og fyrir félagsmiðstöðvar sem Reykjavíkurborg rekur fyrir fullorðna. Heimsendar máltíðir eru eldaðar og skammtaðar heitar, í miðlægu eldhúsi á Lindargötu og sendar heim í hitabökkum. Núverandi starfsemi eldhúss Velferðarsviðs á Lindargötu er að mörgu leyti góð en þó eru ákveðnir vankantar á starfseminni og fyrir liggur að lítið sem ekkert svigrúm er til að anna vaxandi notendafjölda og auknum kröfum um fjölbreytilegt úrval. Huga þarf að breytingum vegna fyrirsjáanlegrar fjölgunar notenda, aukinna krafna um sérfæði og vaxandi fjarlægða innan borgarmarkanna sem gerir dreifingu á heitum mat erfiðari. Vegna þessa hefur Velferðarsvið skoðað möguleika á að innleiða kælieldun í framleiðslueldhúsið á Lindargötu.

Kælieldun þýðir að matur er eldaður og síðan hraðkældur og geymdur kaldur þar til hann er hitaður skömmu áður en hann er borinn fram. Maturinn er eldaður samkvæmt nákvæmum uppskriftum þar til kjarnhiti er a.m.k. 70°C og síðan hraðkældur niður í 3°C á innan við 90 mínútum. Með því að bjóða upp á kælieldun við framleiðslu á heimsendum mat aukast jafnframt möguleikar á að bjóða upp á meira af fersku meðlæti s.s. grænmeti og ávöxtum auk eftirrétta til endurhitunnar eða til að borða kalda. Einnig opnast möguleikar á að setja upp sérstaka sjúkrafæðisdeild þar sem allt öryggi við framleiðslu sér- og sjúkrafæðis yrði mun meira en nú er þar sem ekki yrði eldað, skammtað og dreift sjúkrafæðinu í kappi við klukkuna.

Helstu kostir við kælieldun fyrir viðskiptavininn:

 • Viðskiptavinurinn getur hitað matinn og borðað þegar honum hentar
 • Viðskipavinurinn getur haft val rétta af matseðli dag hvern
 • Viðskiptavinurinn getur haft val um samsetningu á einstökum réttum
 • Allir matarskammtar eru merktir með nafni viðskiptavinar.
 • Hægt er að afgreiða fleiri en eina máltíð í einu fyrir sama daginn
 • Möguleikar opnast til að veita ýmsa aðra þjónustu í sömu ferð
 • Aukið öryggi og meiri möguleikar í afgreiðslu á sérstöku sjúkrafæði

En á móti gæti komið • Aukin þörf á innliti frá heimaþjónustu til hluta viðskiptavina
 • Einhverjar tegundir af mat henta ekki til kælieldunar
 • Ekki er víst að búnaður sé til endurhitunar á öllum heimilum þ.e. eldavél eða örbylgjuofn.
 • Dreifing stendur yfir allan daginn en ekki eingöngu um hádegisbil
 • Viðskiptavinir munu verða að aðlagast nýju kerfi
 • Pantanafyrirvari gæti lengst frá því sem nú er