01.05.2017 | Fréttir

Viljayfirlýsing um úthlutun lóðar

Reykjavíkurborg og Samtök aldraðra hafa gengið frá drögum að viljayfirlýsingu um úthlutun lóðar á skipulagsreit við Stakkahlíð til Samtaka aldraðra með byggingarrétti fyrir fjölbýlishús með 60 íbúðum fyrir eldri borgara. Þau verða lögð fyrir Borgarráð til samþykktar á fundi þess 11. maí nk.

Viljayfirlýsingin fer hér á eftir:


Viljayfirlýsing


Í samræmi við markmið Húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar og Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 um fjölbreytt framboð húsnæðiskosta, aukið framboð húsnæðis fyrir alla félags-hópa og félagslega fjölbreytni innan hverfa og vilyrði Reykjavíkurborgar til Samtaka aldraðra frá apríl 2014 staðfesta Reykjavíkurborg, kt. 530269-7609, Tjarnargötu 11, Reykjavík og Byggingasamvinnufélagið Samtök aldraðra bsvf., kt. 580377-0339, Síðumúla 29, Reykjavík, svohljóðandi sameiginlega viljayfirlýsingu um uppbyggingu íbúða fyrir eldri borgara á svokölluðum KHÍ reit við Stakkahlíð í Reykjavík:

1. Reykjavíkurborg lýsir yfir vilja til að úthluta lóð á skipulagsreit við Stakkahlíð til Samtaka aldraðra með byggingarétti fyrir fjölbýlishús með 60 íbúðum fyrir eldri borgara. Lóðin er merkt reitur C á deiliskipulagstillögu. Deiliskipulag fyrir svæðið er ósamþykkt, en er til umfjöllun hjá Skipulagsráði Reykjavíkurborgar.

2. Í leigusamningum um lóðina skal vera kvöð um byggingu og rekstur íbúða fyrir félaga í Samtökum aldraðra sem eru 60 ára eða eldri. Kvöð þessari skal þinglýst á íbúðir fjölbýlishússins. Samtökin skulu leita hagkvæmustu leiða í samningum við verktaka með útboðum eða verðkönnunum.

3. Verð byggingarréttar ákvarðast 40.000 kr. á hvern byggðan fermetra, ofanjarðar. Greidd verða auk þess gatnagerðargjöld í samræmi við gildandi gjaldskrá Reykjavíkurborgar hverju sinni.

4. Hönnun íbúðarhúsnæðis verði í samræmi við markmið húsnæðisstefnu um fjölbreyttar húsagerðir, blöndun íbúðagerða innan hverfa og aukið framboð smærri íbúða, fyrir alla félagshópa.

5. Samtök aldraðra skulu hafa eftirlit með endursölu íbúða í húsunum í samræmi við 12. gr. samþykkta Samtakanna og því að íbúðaeigendur og leigutakar uppfylli framangreind skilyrði. Tilkynna skal félaginu formlega vilji íbúðareigandi selja eða leigja íbúð sína. Með lóðarleigusamningi skal þinglýsa kvöð á allar íbúðir um sölu íbúða og að Samtök aldraðra

skuli árita kaupsamninga um íbúðir skv. ofangreindu. Þá skal þinglýsa kvöð um að óheimilt verði að leigja íbúðir í skammtímaleigu eða til gistiþjónunstu.

6. Í samræmi við húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar er sú kvöð á lóðinni að Félagsbústaðir hf., kt. 510497-2799 hafi við fyrstu sölu Samtaka aldraðra á íbúðum í húsunum kauprétt að 5% íbúða á lóðinni á sama verði og selt verður til félagsmanna í samræmi við 12. gr. samþykkta Samtakanna. Miðað er við að birt flatarmál íbúða þessar skulu vera að 40-60m2. Kaup íbúða skulu boðin Félagsbústöðum hf. samhliða því að byggingarnefndar-teikningar verða lagðar inn til byggingarfulltrúa. Skulu Félagsbústaðir svara innan 30 daga hvort þessa réttar verður neytt.

7. Miðað er við að hús á lóðinni hafi tengingu við þjónustumiðstöð Reykjavíkurborgar við Bólstaðahlíð.

8. Reykjavíkurborg áskilur sér einnig rétt til að setja sérstaka úthlutunarskilmála um framangreinda lóð.

Nánari skilmálar verða settir við úthlutun lóðarinnar og með fyrirvara um endanlega niðurstöðu í nýju deiliskipulagi.

9. Vilyrði til félagsins sem samþykkt var á fundi borgarráðs 2. apríl 2014 fyrir sömu lóð er fallið úr gildi.

Gildistími þessarar viljayfirlýsingar er tvö ár frá undirritun hennar, en að þeim tíma liðnum áskilur Reykjavíkurborg sér rétt til að úthluta viðkomandi lóð með byggingarrétti til annarra uppbyggingaraðila hafi ekki verið gefið út úthlutunarbréf vegna lóðarinnar.

Reykjavík, maí 2017.