01.02.2017 | Fréttir

Það er þolinmæðisverk að finna lóð í Reykjavík fyrir vestan Elliðaár.

Síðast var sótt um lóð fyrir 22 íbúðir við Skógarveg 16 í Fossvogi. Hún var ætluð eldri borgurum. Málinu var vísað til embættismanna og það sofnaði þar. Borgin hefur nú úthlutað lóðinni til Búseta.
Í dag fögnum við því að í sjónmáli er lóð fyrir allt að 60 íbúðir á Kennaraskólareitnum, Stakkahlíð/Bólstaðarhlíð. Þetta ferli er búið að taka um 7 ár.


Samtökin hafa ekki fengið úthlutað lóð síðan 2007, þrátt fyrir ítrekaðar óskir. Árið 2010 fór fyrrum formaður Samtaka aldraðra, Erling Garðar, á fund Velferðarsviðs til að fá borgaryfirvöld í lið með Samtökunum og fá menntamálaráðuneytið til að afsala hluta lóðar Kennaraháskólans. Jákvæð viðbrögð komu frá borginni. Hún ræddi við ráðuneytið og fékk jákvæð viðbrögð. Í framhaldi var fenginn arkitekt til að koma með tillögur að skipulagi á byggingareitum eldri borgara og námsmanna. Haldnir voru margir fundir með starfsmanni borgarinnar og arkitekt. Þegar komin var ásættanleg tillaga ákvað Umhverfis og skipulagsráð að efna til samkeppni um deiliskipulag milli þriggja arkitektastofa. Áður en samkeppnin fór af stað var ekki haft samráð við Samtökin. Tillaga frá A2F arkitektum varð hlutskörpust að dómi skipulagsins. Tillagan gerði ráð fyrir um 16 2ja til 3ja hæða sambyggðum húsum með risíbúðum. Verðlaunatillagan gat ekki á nokkurn hátt uppfyllt þarfir eldri borgara. A2F var falið að koma með nýja tillögu sem kæmi til móts við þarfir eldri borgara og námsmanna.
Í jan. 2016. kom loks ný tillaga sem uppfyllir að mestu óskir okkar. Sú tillaga sem er enn í kynningu eins og greint er frá hér fyrir neðan.60 nýjar íbúðir fyrir eldri borgara á Kennaraskólareitnum.
Tillaga að breyttu skipulagi á hluta af landi sem tilheyrði Kennaraháskóla Íslands og ríkið hefur afhent Reykjavíkurborg er enn í kynningarferli hjá Umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.
Upphaflega var gert ráð fyrir að kynningarferlið tæki um 3 mánuði. Því átti að ljúka í ágúst 2016. Þegar nýtt deiliskipulag lá fyrir gerði Skipulagsstofnun ríkisins athugasemdir við afgreiðslu þess. Taldi að ekki væru nægar skýrar heimildir um magn námsmannaíbúða í aðalskipulaginu. Reynt var að fá deiliskipulagið samþykkt með óverulegum breytingum á aðalskipulaginu, en Skipulagsstofnun ríkisins féllst ekki á þá lausn. Þetta stapp hefur því tafið málið um 8-10 mánuði.
Samtökin hafa átt nokkra fundi með borginni til að fá dagsetningu á gatnaframkvæmdum og gjaldtöku fyrir lóðina. Málin þokast mjög hægt í borgarkerfinu þó ekki sé meira sagt.
Formaður samtakanna skrifaði Degi borgarstjóra bréf rétt fyrir áramót og óskaði eftir fundi með honum og Hjálmari Sveinssyni, formanni Umhverfis- og skipulagssviðs, en þeir hafa ekki enn svarað beiðni um fund.
Það kom Samtökunum á óvart að borgin lýsti eftir tilboðum í byggingarrétt undir 60 íbúðir fyrir aldurshópinn 60+ við Hraunbæ 103A, ætlaðar fyrir einkaframtakið. Tíu tilboð komu í lóðina á bilinu 154-780 milljónir króna sem gera kr. 2,6-13,0 milljónir pr. íbúð.
Við héldum að félagsmálaflokkarnir í borgarstjórn vildu taka þátt í að lækka byggingar-kostnað frekar en að hlaða undir einkaframtakið. Samtökin eru ekki rekin með hagnaðar-sjónamiði. Markmið þeirra er að byggja ódýrt fyrir aldurshópinn 60+. Nú þurfa Samtökin að bretta upp ermarnar og einsetja sér að ná samkomulagi við borgina um úthlutun lóðar á sem bestu kjörum. Borgin og þeir flokkar, sem henni stjórna, eru komnir nokkuð af þeirri leið, sem maður hélt að þeir fylgdu.
Þegar Borgin hefur afhent lóðina formlega og gefið ásættanleg svör við fyrirspurnum verður hönnun sett í gang og í framhaldi boðað til með áhugasömum félögum Samtakanna.
Skoðið teikningar af skipulaginu Stakkahlíð/Bólstaðarhlíð.
Landinu er skipt í fjóra reiti, A-B-C-D. Á reitum A og B er gert ráð fyrir 100 litlum íbúðum fyrir námsmenn.Á reit C er gert ráð fyrir 60 íbúðum fyrir eldri borgara. Reitnum er skipt niður í sex svæði sem skiptast þannig: C1 15-18 íbúðir, C2 17-21 íbúð, C3 24-27 íbúðir, C4-C5 glerskálar/garðskýli fyrir ræktun og garðáhöld og C6 bílgeymsla neðanjarðar fyrir allt að 60 bíla eða sem svarar einu stæði á íbúð. Jarðvegur yfir bílgeymslu skal vera nægjanlega þykkur fyrir lággróður.
Á reit C er gert ráð fyrir 24 bílastæðum utandyra. Innkeyrsla inn í bílgeymsluna verður frá Stakkahlíð.
Gert ráð fyrir 2ja og 3ja herbergja íbúðum. Húsin eru 3-5 hæðir auk kjallara.Á reit D er gert ráð fyrir menntastofnun/samfélagsþjónustu.

a2f_khi_kynning uskr 2016-01-13 stytt.pdf