01.02.2017 | Fréttir

Samtök aldraðra afhenda íbúðir að Kópavogsgerði 5-7, Kópavogi.

Samtök aldraðra og Dverghamrar ehf. afhentu sl. haust eigendum 19 íbúða að Kópavogsgerði 5-7 í Kópavogi íbúðir sínar. Með þessum áfanga er lokið byggingu 466 íbúða á vegum Samtaka aldraðra á höfuðborgarsvæðinu. Húsið er fimm hæðir, byggt af byggingarfélaginu Dverghamrar ehf. í samvinnu við Samtök aldraðra. Í húsinu eru 20 þriggja herbergja íbúðir, 122-130 m² og tvær toppíbúðir á 5. hæð, 20 stæði í bílgeymslu, 22 geymslur og sameignageymsla. Sala íbúða hefur gengið vel, þó eru enn 3 íbúðir á 1. hæð óseldar. Gengið er beint inn af lóð inn í þessar íbúðir.
Framkvæmdir við húsið hófust í byrjun árs 2015 og þeim lauk í ágúst 2016. Verkið tók því um 18 mánuði. Í aðdraganda áforma um byggingu húsanna við Kópavogstún og Kópavogsgerði voru haldnir margir formlegir og óformlegir fundir, m.a. með fulltrúum bæjarráðs Kópavogskaupstaðar, um almennar og lögbundnar þjónustuskyldur við eldri borgara, og síðan fundur með stjórn Sunnuhlíðarsamtakanna um sama efni og þjónustugetu þeirra. Öllum óskum Samtaka aldraðra var vel tekið og íbúar húsanna munu eiga kost á allri þeirri þjónustu sem Kópavogsbær er með í boði. Því miður varð hins vegar ekki af þjónustu Sunnuhlíðar-samtakanna þar sem ríkið yfirtók rekstur Sunnuhlíðar og dró saman reksturinn þannig að sú þjónusta sem Sunnuhlíðar-samtökin áformuðu að veita er ekki lengur til staðar.Það var einkum tvennt sem réði vali Samtaka aldraðra á byggingu húsa á þessum stað. Annars vegar staðsetning í næsta nágrenni við þjónustu og hjúkrunarheimili, hins vegar frábært umhverfi, sýn á náttúrufegurð úr hverjum glugga og göngustígar með sjávarsíðunni. Fyrra atriðið vó mjög þungt en því miður er sú þjónusta sem vænst var ekki lengur til staðar. Vonandi endurskoðar ríkið afstöðu sína til að uppfylla lög um málefni aldraðra, nr. 125 1999 en þar segir í fyrstu gr.: „Markmið þessara laga er að aldraðir eigi völ á þeirri heilbrigðis- og félagslegu þjónustu sem þeir þurfa á að halda og að hún sé veitt á því þjónustustigi sem er eðlilegast miðað við þörf og ástand hins aldraða. Einnig er markmið laganna að aldraðir geti, eins lengi og unnt er, búið við eðlilegt heimilislíf en að jafnframt sé tryggð nauðsynleg stofnanaþjónusta þegar hennar er þörf. Við framkvæmd laganna skal þess gætt að aldraðir njóti jafnréttis á við aðra þjóðfélagsþegna og að sjálfsákvörðunarréttur þeirra sé virtur.“ Þetta markmið hafa Samtök aldraðra í reynd haft að leiðarljósi frá upphafi.Til hamingju Kópavogur, til hamingju byggjendur og félagar Samtaka aldraðra með þetta glæsilega hús.